Vitundarvakning um fatasóun

Kvenfélagasamband Íslands fékk úthlutað styrk frá Umhverfisráðuneytinu vegna verkefnisins „Vitundarvakning um fatasóun“. Verkefnið er þegar hafið með grein sem birtist í fyrsta tölublaði Húsfreyjunnar í febrúar og með þátttöku í Umhverfishátíðinni sem haldin var í Norræna húsinu í byrjun apríl. Markmið verkefnisins er að fræða almenning um mikilvægi þess að sporna gegn fatasóun og fræða um umhverfisáhrif fatasóunar.

Kvenfélögin hafa nú þegar verið að vinna að verkefnum þessu tengdu meðal annars með því að sauma þúsundir fjölnota poka úr endurnýttum vefnaði og gefa eða selja í sínu samfélögum.

Í tengslum við verkefnið verða greinar og efni um fatasóun birtar hér á síðu Leiðbeiningastöðvar heimilanna og í Húsfreyjunni út árið 2018 og fram á vor 2019. Kvenfélögin eru hvött til að efna til viðburða og fræðslu um sóun til dæmis með því að skipuleggja fatabýtti, bjóða upp á aðstoð við að breyta fatnaði, gera við og endurnýta. Sérstök fræðsla um fatasóun verður svo á landsþingi KÍ á Húsavík í október. 

Það er von Kvenfélagasambandsins að sem flestar kvenfélagskonur taki þátt í verkefninu á einn eða annan hátt og að það verði til þess að sameina kvenfélögin í verkefni sem hefur sterk samfélagsleg og umhverfisleg áhrif samkvæmt markmiðum KÍ.