Hvað eru spilliefni?

Hin árlega evrópska Nýtnivika fer fram dagana 17. – 25. nóvember og þemað 2018 er Spilliefni – Tími fyrir afeitrun!

Um Nýtnivikuna: Vikan er samevrópskt átak og er markmið hennar að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur og kaupa minna. Neysla og sóun eru eitt af þessum stóru verkefnum sem við þurfum að takast á við til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Allt í kringum okkur eru efni sem koma að góðum notum í okkar daglega lífi, bæði í efnablöndum og hlutum. Hluti þessara efna eru kölluð spilliefni en þau eru efni sem geta valdið umhverfi og heilsu manna miklu tjóni. Þetta eru efni eins og alkóhól, ammoníak, bensín, klór, kvikasilfur, ýmsar olíur og fleira. Því er mikilvægt að þeim sé fargað með réttum hætti.
Besta ráðið er að kaupa sem minnst af efnum en sé það gert að velja þá efni sem eru betri fyrir umhverfi og heilsu manna.

▪ Sleppum því að nota efni

▪ Af tveimur kostum, veljum efni sem ekki hafa hættumerkingar

▪ Veljum umhverfisvottaðar vörur

Spilliefni geta mengað grunnvatn, sum þeirra eru þrávirk og geta því magnast upp í gegnum fæðukeðjuna. Þau geta líka verið í formi sýra sem éta sig í gegnum hold. Einnig geta eldfim efni og þungmálmar í raftækjum og flugeldum verið krabbameinsvaldandi.

Ef við komum spilliefnum ekki í réttan farveg fara þau með almennum úrgangi á urðunarstaði. Jafnvel þó að miklar varúðarráðstafanir séu gerðar á slíkum stöðum t.d. með drenlögnum þá er alltaf hætta á að hættuleg efni endi í grunnvatni eða sjó. Við ættum alltaf að hafa í huga að öll efni sem við notum við sturtur, vaska og þvottavélar - stíflueyðir, hreinsiefni, tjöruhreinsir, málning af penslum o.fl. - enda í frárennslinu okkar og þaðan renna þau ómeðhöndluð beint út í sjó. Þess vegna ætti að forðast notkun á slíkum efnum nema í ítrustu nauðsyn og ef þess gefst kostur velja frekar umhverfisvottuð efni. Það er bæði betra fyrir umhverfið og sparar pening.

Árið 2016 fóru á markað 10.100 tonn af almennum spilliefnum. Af þeim skiluðu sér inn 5.500 tonn af spilliefnum til réttrar meðhöndlunar, sem þýðir að um 50% spilliefna fór ekki í réttan farveg.

 

Texti: Umhverfisstofnun - Evrópska nýtnivikan 

  • Wednesday, 21 nóvember 2018