Vel heppnaður Umhverfisdagur á Hallveigarstöðum

Fjöldi fólks mætti á Umhverfisdag þar sem Kvenfélagasamband Íslands og Leiðbeiningastöð heimilanna buðu fólki að koma við og fá aðstoð við fataviðgerðir, taka þátt í fataskiptimarkaði, kynna sér umhverfisvænar vörur og fleira.  Röð var í saumavélarnar sem voru á staðnum og þær kvenfélagskonur sem voru til aðstoðar höfðu í nógu að snúast. Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra var einn af þeim sem nýtti sér þjónustuna og settist sjálfur við eina saumavélina og gerði við flíkur sem hann hafði tekið með sér í poka. Fjöldinn allur af fólki mætti einnig með föt og gerði góð skipti á fataskiptimarkaðnum.

Fyrirtækin Mena.is og Hrisla.is kynntu umhverfisvænar vörur. Virpa Jokinen hjá Á réttri hillu kynnti skipulagsþjónustu sína og Reykjavík Tool Library kynnti sína starfsemi. Sigríður Jóakimsdóttir sýndi og seldi diska sem hún hefur verið að endurnýta. Húsfreyjan - tímarit kvenfélagasambandsin var einnig á staðnum og kynnti blaðið. Að sjálfsögðu var svo kaffi- og vöfflusala að hætti kvenfélagskvenna. Mikil stemming var í húsinu og greinilegt að gestir voru ánægðir með viðburðinn. Það voru kvenfélagskonur frá Kvenfélögum í Grímsneshreppi, Álftanesi og Mosfellsbæ sem gáfu tíma sinn þennan dag til að vera til aðstoðar og eru þeim færðar sérstakar þakkir. Rúv og Morgunblaðið mættu á staðinn og tóku myndir og viðtöl.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá deginum.