Börnin með í eldhúsið á aðventunni

Aðventan er yndislegur tími til njóta með börnunum og barnabörnunum. Þau hafa gaman af því að eiga sinn þátt í undirbúningnum. Það er því um að gera að leyfa þeim að taka þátt í sem flestu. Margar fjölskyldur eiga sínar hefðir sem eru endurteknar fyrir hver jól og oft verða þessar hefðir að góðum minningum. Eitt af því sem flest börn hafa gaman af að gera fyrir jólin er að hjálpa til í eldhúsinu.

Við tókum til nokkur góð ráð og tvær uppskriftir sem ekki þarf að baka og henta sérstaklega vel fyrir börn og fullorðna. 

 

Það fer að sjálfsögðu mikið eftir aldri barnanna hverju þau hafa áhuga á og hver geta þeirra er. Þau sem eru eldri og farin að lesa og skrifa geta tekið þátt í því að skrifa innkaupalistann, þau geta lesið leiðbeiningarnar og vigtað og mælt hráefnin. Þau sem yngri eru hafa minni athygli og því nauðsynlegt að finna þeim verkefni sem ekki taka of langan tíma.
Við tókum til nokkur góð ráð og tvær uppskriftir sem ekki þarf að baka og henta sérstaklega vel fyrir börn og fullorðna. 

Finna réttu uppskriftirnar:
Hér geta þau sem eldri eru hjálpað til og komið með hugmyndir, leitað í uppskriftabókum eða á netinu. Fyrir þau yngri er um að gera að hugsa á hvern hátt þau geta tekið þátt. Veljið nokkrar uppskriftir og leyfið börnunum síðan að velja.

Það er gaman að skreyta:
Öll börn hafa gaman af því að skreyta og það er margt sem hægt er að gera í þeim efnum, hvort sem það er að mála og skreyta piparkökur eða piparkökuhús sem keypt er út í búð eða gerð frá grunni. Það má vel nota meira en glassúr til að skreyta með, í flestum verslunum er mikið úrval af allskonar kökuskrauti sem er um að gera að nota með glassúrnum. Um að gera að nota hugmyndaflugið, sykurpúðar og allskonar sælgæti eru tilvalið sem skraut, og ekki verra að fá að maula aðeins í leiðinni. 

Gefið ykkur góðan tíma:
Það er um að gera að gefa sér góðan tíma, helgarnar eru tilvaldar í svona stundir. Það eru miklu meiri líkur á að börnin njóti þess meira að brasa með ykkur í eldhúsinu frekar en að fara í verslunarferðir. Skellið jólalögunum á, kveikið á kertum og komið ykkur í rétta stellingar. 

Undirbúningur:
Undirbúningurinn er grundvallaratriði svo að að stundin nýtist sem best. Verið búin að taka fram hráefnið og jafnvel mæla það í skálar, þau sem eldri eru geta hjálpað til við að mæla og vigta. Ef allt hráefni er tilbúið áður en hafist er handa verður frágangurinn einfaldari og engin hætt á að heilu pokarnir af hveiti eða sykri detti á gólfið. Hægt er að setja dagblöð á gólfið, prenta út uppskriftir og setja í plastvasa. Vefja plastfilmu um uppskriftabækurnar. Nota svuntur og vera í fötum sem mega við smá subbugangi. 

Hreinlæti og öryggi:
Bakstur og eldamennska er tilvalin til að kenna börnunum grundvallaratriði í hreinlæti og öryggi. Um að gera að nýta stundina og ræða mikilvægi þess að þvo sér um hendur og hafa hrein borð og umhverfi. Heitar hellur og ofn eru annað atriði sem mikilvægt er að ræða við börnin um. Ef börnin þurfa að standa á stól er mikilvægt að hann sé traustur. Kennið þeim að aðeins fullorðnir eigi að handleika beitta hnífa. Svo er tilvalið að hafa nokkra teskeiðar í glasi svo auðvelt sé að fá sér að smakka án þess að fara með fingur ofaní deigið. 
Munið að hrósa:
Börnin geta verið að gera mjög einfalda hluti, en þau eru kannski að gera það í fyrsta skipti og því er um að gera að gefa þeim hrós reglulega og hvetja þau áfram. Leyfið þeim að njóta og það skiptir ekki öllu þó að afraksturinn líti ekki nákvæmlega eins út og fyrirmyndin.

Súkkulaði brot:
200 g suðusúkkulaði
200 g mjólkursúkkulaði
50 g smjör
1 tsk sýróp
Svo er hugmyndaflugið notað í fyllinguna, til dæmis: sykurpúðar, M&M, hrískúlur, ýmiskonar hnetur og fræ. 
Leiðbeiningar:
Bræðið saman súkkulaði, smjör og sýróp í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, hellið í aflangt form sem hefur verið klætt með smjörpappír, leyfið svo börnunum að setja fyllinguna yfir (þegar súkkulaðið hefur aðeins kólnað). Síðan er formið sett inn í ísskáp og kælt í um tvær klukkustundir. Tilvalið að skella sér aðeins út að leika á meðan. Þetta er síðan brotið í hæfilega bita og geymt á svölum stað.

aarocky roadsmall

Súkkulaði trufflur:
200 g gott dökkt 70% súkkulaði
200 ml rjómi
25 g ósaltað smjör
Bragðefni: t.d Appelsínu essense eða sjávarsalt.
Dökkt kakóduft
Kókosmjöl
Saxaðar pistasíu hnetur
Leiðbeiningar:
Saxið súkkulaðið niður og setjið í stóra skál. Bræðið smjörið í rjómanum í litlum potti, hitið að suðu. Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og hrærið þar til það hefur bráðnað. Bætið við braðgefnum aðeins nokkra dropa, smakkið til áður en þið bætið meiru við. Kælið blönduna í um fjóra tíma eða yfir nótt. Blandan ætti að vera mjúk og tilbúin til að móta hana með teskeið. Gott að setja teskeiðina í vatn á milli þess sem hún fer í blönduna, búið til litlar kúlur. (leyfið börnunum að móta þær). Setjið kúlurnar á ofnplötu eða bakka með bökunarpappír.Setjið kakóduftið, kókosmjölið og pistasíu hneturnar í sitthvora skálina. Kúlunum er að lokum velt upp úr kakódufti, síðan kókosmjöli og pistasíuhnetunum.

P.s. Hægt er að nota líkjöra sem bragðefni í þess uppskrift til dæmis Baileys eða Malibu, gætið þess þó að nota aðeins fáeina dropa því annars getur blandan orðið of mjúk. Þannig uppskrift ætti þó frekar að gera að kvöldi til með fullorðins vinum.

trufflur

 

 

birtist í 4. tbl Húsfreyjunnar 2017

 

Jenný Jóakimsdóttir tók saman.

  • Thursday, 29 nóvember 2018

Leiðbeiningastöð heimilanna

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 1135;
lh@leidbeiningastod.is