Gagnleg grillráð

Sumarið er grilltími. Margir grilla (glóðarsteikja) allt árið um kring, en það er ákveðin stemmning yfir því að grilla í góðu veðri, borða úti undir beru lofti og eiga góða stund saman.

Glóðarsteiking

Áhöld  -  Aðferðir
Það gildir sama með grilleldun og aðra eldun að skipulag er lykillinn að því að vel takist til. Um að gera að gefa sér góðan tíma, enda er það stór hluti að upplifuninni að hittast og grilla saman.

Hugum vel að hreinlæti við meðhöndlun hráefnis.
Munum að þvo okkur um hendur áður og á milli þess sem við handfjötlum hráefni.

Nauðsynlegt er að hafa bretti, áhöld og ílát fyrir mismunandi hráefni.
T.d. sér skurðarbretti fyrir hráan fisk, sér fyrir hrátt kjöt, enn eitt fyrir grænmeti og eins fyrir brauð og ávexti. Gjarnan í sitt hvorum litnum þá er maður öruggur með að nota rétt bretti undir hverja tegund fyrir sig.
Plastbretti er betra að þrífa en viðarbretti. Viðarbretti þarf að þvo á báðum hliðum til að þau verpist síður. Séu fá bretti notuð, munið að þvo þau vel á milli úr heitu vatni og sápu og jafnvel sóthreinsandi efni.

Þvo þarf bretti, áhöld og ílát jafnóðum.
Aldrei má nota sama fat undir hráan og eldaðan mat.
Öruggast er að nota eldhúspappír til að þurrka upp blóðvökva og fleygja síðan strax.
Aldrei nota sömu áhöld á hráa og fulleldaðan mat eða blanda saman hráu og fullelduðu hráefni.
Blóðvökvi úr kjúklingakjöti er sérlega varasamur. 
Borðklúta þarf að sótthreinsa t.d. með Rodalon efni, hafi þeir verið notaðir til að þurrka upp blóðvökva.
Ferskt grænmeti má ekki komast snertingu við hrátt hráefni til að forðast krossmengun, en hún leiðir af sér matareitrun sem getur reynst hættuleg. 

Fjölhringja efnasambönd
Þau myndast við bruna á aminósýrum (próteini), kreatíni og fleiri efnum sem eru í kjötvöðva. Fjölhringja sambönd geta stökkbreyst við neyslu kjötsins. Þessi efni myndast síður þegar fiskur og grænmeti er grillað.
Því skal skera skal burtu brunnin (koluð) svæði á bitum áður en þeirra er neytt. Blóðvökvi brennur líka og því getur verið gott að „loka“ kjöti með því að snöggsteikja á pönnu áður en það fer á grillið.
Forðast skal að grilla kjöt lengi, með því móti komum við í veg fyrir kolun.
Rannsóknir benda til að stökkbreytt efnasambönd geti valdið krabbameini t.d. í ristli.
Fyrirbyggjandi aðferð er að skera alla fitu af kjöti áður en það er grillað.
     Það er hægt að grilla ótal margt annað en kjöt og fisk (feitur fiskur eins og lax,lúða og sköruselur henta vel á grillið).
Líka má nefna grænmeti t.d. kúrbít og eggaldin, kartöflur, brauð, lauk, ávexti, brauð og margt, margt fleira.

Ath
Gott er að nota smjörpappír ofan á álpappírin á grillið til að varna því að efni úr álpappírnum leysist upp í matinn.
Sé eingöngu notaður álpappír skal matta hliðin snúa út/niður.
Kjörhiti við glóðarsteikingu er 180° hita, fari hitinn yfir 210° er hætta á myndun fjölhringja efnasambanda. 
Ef notaðir eru trépinnar til að þræða bita uppá til að grilla þarf að leggja þá í kalt vatn fyrir notkun, annars brenna þeir.
Fisk er best að grilla í þar til gerðri grillgrind eða vafin í smjörpappír/álpappí. Sama gildir um kjúklingabita. 
Þegar grænmeti er grillað er best að raða því á álbakka smurðan með olíu.


Þrjár aðferðir eru notaðar við að grilla/glóðarsteikja útivið.

 Gasgriller sennilega algengasti grillmátinn enda auðveldara að stjórna hitanum og maturinn brennur síður. Kveikja þarf á grillinu með góðum fyrirvara og ná upp hita. Þegar grillað er lambalæri eða önnur stærri kjötstykki er gott ráð að hafa kveikt á öðrum brennaranum (á lágri stillingu) og hafa kjötið þar megin sem slökkt er. Grillinu þessu næst lokað. Við þessa aðferð brennur kjötið síður og heldur betur bragði. Hægt er að flýta steikingartímanum með því að forsteikja kjötið í ofni áður en það fer á grillið.
Gott er að bera matarolíu á grillgrindina áður en eldun hefst og pensla kjöt- eða fisksneiðar með kryddlegi á meðan á steikingu stendur, sé hún notuð.
Það er góð regla að þrífa grillgrindina sem fyrst eftir notkun. Annars er erfiðara að ná fitu og brunnu kryddi og blóðsafa og tægjum af. Með því að þrífa grillið reglulega endist það lengur auk þess sem bakteríur þrífast síður á því.
Muna að skrúfa alltaf fyrir gasið þegar gengið er frá grilli eftir notkun.
Hraun- og keramiksteina þarf að skipta um nokkuð reglulega því á þá safnast fita og annað sem lekur úr hráefninu.

Kolagrill Á þau þarf ekki mikið af kolum og munið að setja ekki matinn á grillið fyrr en hætt er að loga í þeim og þau orðin grá. Tekur 20 - 30 mínútur. Varast skal að láta loga leika um matinn og ágætt að hafa úðabrúsa með vatni í við hendina til að slökkva loga.
Kolagrill þarf að tæma og þrífa reglulega.
Munið að fara varlega með kveikilög og eld og fara eftir leiðbeiningum um notkun þeirra.
 

Holugrill er skemmtilegur kostur, sérstaklega þegar hópar koma saman úti í náttúrunni. Tilvalið er að grilla lambalæri í holugrilli.

Allir geta hjálpast að við að grafa holu eða rennu, eftir því hve mikið magn á að grilla. Eins þarf að safna grjóti, spýtum og taka upp torf til að nota við kolagerðina.
Þegar búið er að grafa mátulega djúpt til að rúma grjót, kol og mat.Grjót er sett í botn holunnar til að lofti um kolin, sem þessu næst eru sett ofan á grjótið. Þá er kveikt í kolunum á hefðbundin hátt og ágætt er að leggja grind eða járnteina yfir þau. Matnum er pakkað inn þannig að notaður er smjörpappír næst honum og þar utan um er vafin álpappír. Þegar kolin hafa gránað er maturinn lagður á ofan á. Nú þarf að byrgja holuna þannig að vindur blási ekki ofan í hana og valdi kælingu. Það er best að gera með því að raða grjóti og spýtum í kring og taka leggja síðan torf yfir. Gæta skal að því að súrefni komist að til að halda lífi í glæðunum. Það þarf að snúa kjötinu á eldunartímanum sem er um 1 klst fyrir meðalstórt læri.
Við þessa aðferð sýður (gufusýður) maturinn í sínum eigin safa og verður sérlega safaríkur og meyr.

Munum að það er aldrei of varlega farið þegar opin eldur er annars vegar og göngum ávallt vel frá vegsummerkjum.
Látum aldrei börn vera eftirlitslaus við grill.
Gott og gleðiríkt grillsumar! 

  • Friday, 26 október 2012