Undraefni náttúrunnar

aloevera2Á veturna herja á okkur ýmsar kvefpestir og aðrir kvillar.
Til að mæta álaginu sem því fylgir á líkamann, taka margir inn bætiefni.
Að sjálfsögðu eigum við einnig að huga að hollu mataræði s.s. neyslu á ávöxtum, grófu korni og grænmeti. Ekki gleyma sjávarfanginu, hollum fitum og lýsinu okkar góða.
Náttúran er gjöful og þekking manna á hinum ýmsu eiginleikum jurta og annarra náttúruafurða reynst vel í gegnum árþúsundir, svo kallaðar alþýðulækningar.
Mörg náttúruleg efni hafa öðlast vísindalega viðurkenningu og eru notuð sem uppistaða eða viðbót í lyfjaframleiðslu. Hér er bent á örfá:

Aloe Vera
Plantan er upprunnin í Afríku og eru afbrigðin af henni um 200 talsins. Hún er þykkblöðungur, kjötmikil og safarík. Aldinkjötið, safinn ásamt hýðinu eru notuð til heilsubótar. Plantan inniheldur amínósýrur, E og C vítamín og, steinefni og fitusýrur.
Aloe Vera þykir hafa afar græðandi og rakagefandi eiginleika ásamt því að vera ónæmisstyrkjandi og er notuð bæði til inntöku og í húð-, hár- og snyrtivörur. Safinn hefur reynst vel gegn magasári, bakflæði og meltingartruflunum. Útvortis er gagnast safi og áburður mjög vel við bruna, þurri húð og exemi.
Bestur þykir 98-99% safi, hlaup og krem.

Engiferrót
Hún hefur í meira en 4000 ár verið notuð sem krydd og bragðefni í matargerð. Margskonar rannsóknir hafa verið gerðar á rótinni og hafa fundist um 500 virk efni í henni, sem álitin eru stuðla að betri líðan og hafa jafnvel lækningamátt. Má þar telja vatnslosandi, bólgueyðandi, blóðþynnandi og blóðþrýstingslækkandi áhrif. Auk þess sem rótin er talin hafa bætandi áhrif á meltinguna.
Fersk rótin er áhrifamest, gjarnan rifin eða sneidd og yfir hana hellt sjóðandi vatni og látið trekkja í smástund áður er seyðið er drukkið.

Fjallagrös (Cetraria islandica)
Þau hafa verið notuð um aldir hér á landi. Einkum soðið af þeim seyði en einnig sem krydd í blóðmör, grauta og brauð. Fjallagrös eru einkar næringarík og talin bæta meltingu og styrkja ónæmiskerfið. Seinni tíma rannsóknir benda til að þau geti haft hemjandi áhrif á alnæmisveiruna.
Fást þurrkuð í heilsubúðum.

Grænt te
Það hefur verið þekkt fyrir heilsubætandi áhrif í árþúsundir, bæði japan og Kína. Það er ríkt af andoxunarefnum sem talin eru hafa góð áhrif á frumur líkamans og hafa þannig yngingarrmátt auk þess að hjálpa við útvíkkun æða og þar með gott blóðrásina. Einnig talið styrkja ónæmiskerfið, beinin og bæta einbeitingarhæfni.
Grænt te fæst í margs konar útgáfum, bæði laust og í grisjum og stundum blandað öðrum tetegundum eða jurtum. Fæst einnig í hylkjum til inntöku.

Hunang
Er seigfljótandi gullin vökvi sem býflugur og önnur skordýr vinna úr safa blóma og plantna. Hunang var lengi vel aðalsætuefni sem þekktist í Evrópu og er í dag mikið notað í matargerð, bakstur og jafnvel snyrtivörur. Það inniheldur fjölda vítamína, steinefna og meltingarenzíma og er talið sótthreinandi og bakteríudrepandi. Kjörið að setja út í te og drekka við særindum í hálsi, en gæta skal þess að láta mesta hitan rjúka úr teinu fyrst annars geta hin góðu enzím farið forgörðum.
Hunang virkar mýkjandi á exem og húðþurrk. Fæst bæði fljótandi og þykkt en mælt er með að kaupa hreint lífrænt ræktað hunang þ.e. sem minnst unnið.

Hvítlaukur
Er til í yfir 300 afbrigðum og frásagnir af lækningamætti á góðum áhrifum hans á heilsu manna má rekja allt að 5000 árum aftur í tímann. Hvítlaukur er bragðmikill, góður sem krydd og sem slíkur algengur í matseld margra þjóða.
Sá krankleiki er varla til sem hann á ekki að bæta og má neyta hans í töluverðu magni.
Hér má nefna,hjarta- og æðasjúkdóma, ofnæmi, gigt, sykursýki, bronkítis, kvef, herpes, hálsbólgu, húðsjúkdóma, ýmiss konar sýkingar og jafnvel lofthræðslu.
Hvítlauk má nota hvort heldur er innvortis eða útvortis.
Fæst ferskur og líka sem töflur eða hylki.

Hvönn (Angelica)
Ætihvönn vex víða villt og er einnig ræktuð. Blöð plöntunnar hafa lengi verið notuð sem krydd og ræturnar til matargerðar, í lyf og sem bætiefni í snyrtivörur og víngerð. Hún er af mörgum talin merkasta lækningajurt hér á landi. En samkvæmt íslenskum rannsóknum er íslenska hvönnin mun áhrifameiri en hvönn sem ræktuð er annars staðar í Evrópu. Raunvísindastofnum hefur sannreynt að efni í ætihvönn vinna gegn bakteríum, vírus- og sveppasýkingum. Auk þess sem efni í henni er talið hemjandi á krabbameinsfrumur og talið örva ónæmiskerfi okkar. Íslenska hvönnin hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í þróun lyfjaframleiðslu til framtíðar.
Bætiefni unnin úr hvönn fást í mixtúru-, töflu- og hylkjaformi.

Kanill (cinnamon)
Kryddið er unnið úr innri berki kaniltrésins og er þekkt sem bragðefni í kökur og margskonar austurlenska matargerð, einkum indverka. Besti kanillinn þykir sá sem kemur frá Sri Lanka. Kanill er talin hjálpa gegn meltingatruflunum, sveppasýkingum, liðagigt, lækka kólesteról í blóði, vinna gegn sykursýki ásamt því að geta hamið vöxt krabbameinsfruma.
Það þykir góð og áhrifamikil blanda að hræra saman 2 msk af hunangi, 3 tsk af kanil út í ½ líter af vatni eða tei og neyta daglega.

Rauður sólhattur og sólhattur (Echinacea angustifolia - Rudbeckia og Bruneria)
Talið er að indjánar hafi fyrstir uppgötvað lækningamátt rauða sólhattarins en hann og sólhattur eru unnir úr blómum af körfublómaætt, sem heitir Sólhattur. Í seinni tíð hefur rót rauða sólhattarins verið bætt við í hlutfallinu 5/95 og aukast þá áhrif hans að miklum mun t.d. að styrkja ónæmiskerfið og vinna þannig gegn kvefpestum og sýkingum. Í þýskri rannsókn var m.a. greint frá góðum áhrifum sólhatts á kíghósta, berkla, liðagigt og eyrnasýkingu.
Fæst í heilsubúðum í dropa- og töfluformi.


Húsfreyjan 3. tbl. 2009

  • Friday, 26 október 2012

Leiðbeiningastöð heimilanna

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 1135;
lh@leidbeiningastod.is